top of page

Börn á tímum efnahagsþrenginga

Fyrir nokkrum vikum síðan birti Haukur Sigurðsson, sálfræðingur, greinargóða skýrslu yfir geðheilbrigðisleg og félagsleg áhrif efnahagskreppunnar í Finnlandi á tíunda áratug síðustu aldar. Þar kemur m.a. fram, að þeir þjóðfélagshópar sem verst fóru út úr kreppunni hvað geðheilbrigði varðar voru börn og unglingar. Merki þess í dag má helst sjá á því, að aukningu í útgjöldum ríkisins á örorkubótum og sjúkradagpeningum vegna geðrænna vandamála má fyrst og fremst rekja til gífurlegrar aukningar bótaþega í þeim aldurshópi sem var börn og unglingar á tímum efnahagskreppunnar í Finnlandi á fyrrnefndu tímabili. Af sálrænum kvillum ber kvíða og þunglyndi hæst.

Í því sem hér fer á eftir ætla ég að fjalla um hvernig heilavísindin geta hjálpað okkur að skilja bæði áhrif kreppu sem og hvernig megi reyna að draga úr neikvæðum áhrifum kreppu á geðheilsu íslenskra barna og unglinga.

Af mörgum verkefnum heilans er eitt það verkefni sem heilinn tekur sérstaklega alvarlega – hvað honum beri að gera til að tryggja það að við komumst lífs af og að okkur líði vel. Til þess arna hefur heilinn þróað nokkur kerfi. Þau mikilvægustu eru árásar- og flóttakerfið, stirðnunarkerfið og gleði/umbunarkerfið. Til einföldunar á því sem hér fer á eftir nefni ég árásar-, flótta- og stirðnunarkerfin einu nafni varnarkerfið (því aðalmarkmið þeirra allra er að bregðast við hættu til að tryggja lífsafkomu okkar) og gleði/umbunarkerfið læt ég falla undir tengslakerfið (því grundvallarvellíðan heilbrigðs heila er upplifun á því að vera í góðum tengslum við aðrar manneskjur).

Tengslakerfið. Allt frá fæðingu sýnir ungabarnið ýmis merki þess að vilja tengjast annarri mannveru. Þegar tengsl eiga sér stað, sem einkennast af því að hinn fullorðni skynjar nægjanlega vel þarfir og innra ástand barnsins og svarar barninu í samræmi við það, upplifir barnið öryggi og virkni umbunarkerfisins eykst til muna. Það þýðir m.a. að framleiðsla á dópamíni eykst (sem felur í sér upplifun af gleði og áræðni) sem og framleiðsla af endorfínum (sem felur í sér upplifun af vellíðan og ró). Þetta ástand öryggis, gleði og vellíðunar kallar á könnunarhegðun hjá barninu, en sú hegðun er grundvöllur bæði leiks og náms. Við upplifun á öryggi er varnarkerfið í ró.

Varnarkerfið. Allt frá fæðingu eru svæði virk í heilanum sem m.a. hafa það hlutverk að meta áreiti frá líkama og umhverfi út frá því hvort þau séu mögulega hættuleg afkomu okkar eða hvort þau koma til með að vekja með okkur vanlíðan. Möndlungurinn (amygdala) er hér í aðalhlutverki. Möndlungurinn er nokkurs konar varðhundur heilans sem á ca. 15 millisekúndum metur áreiti út frá flokkuninni „öruggt-óöruggt“. Ef möndlungurinn metur áreiti sem óöruggt setur hann varnarkerfið í gang.

Varnarkerfið stendur nú frammi fyrir því hvaða undirkerfi (árásar-, flótta- eða stirðnunarkerfið) sé best að virkja til að endurheimta upplifun af öryggi. Er líklegast til árangurs að ráðast á hættuna og gera hana að engu (árás), er best að flýja frá hættunni og leita sér skjóls (flótti) eða, ef hvorki árás né flótti er líkleg til árangurs, að flýja innávið og á þann máta að leita sér skjóls (stirðnun)? M.ö.o. hvaða sjálfsbjargarleið er líklegust til að endurheimta upplifun á öryggi og vellíðan?

Það er útbreidd skoðun meðal þeirra sem fást við rannsóknir á tilfinningum að þróunarsögulegt hlutverk þeirra sé aðallega að undirbúa líkamann undir ákveðna hegðun og hjálpa honum þannig við að leysa þau verkefni sem krefjast úrlausnar hverju sinni. Við skynjum því ekki einungis tilfinningar annarra, heldur sjáum við þær einnig í verki. Reiði undirbýr líkamann þannig undir árás, kvíði undirbýr líkamann undir flótta og vanmáttur undirbýr líkamann fyrir hreyfingarleysi (stirðnun).

Á meðan einstaka tilfinningar eru tiltölulega einsleitar hvað upplifun varðar, þá er birtingarform þeirra allt annað en einsleitt. Algeng hegðun sem getur fallið undir sjálfsbjargarleiðina „árás“ er t.a.m.: ráðast á, berja, fleygja hlutum, beita ofbeldi, bíta, skyrpa, sýna mótþróa, stjórnsemi, stríðni, hæðni, mótmæla (hér koma upp í hugann myndir síðustu mánaða af íslenskum mótmælendum í kjölfar bankahrunsins). Hegðun þeirra sem helst velja sjálfsbjargarleiðina „flótta“ má sjá í: hliðrun eða forðun frá hættulegum/óöruggum aðstæðum, ósjálfstæði, leitun að staðfestingu, tilraun til að þóknast, eirðarleysi og einbeitingarskorti. Dæmigerð hegðun fyrir sjálfsbjargarleiðina „stirðnun“ er: að einangra sig frá öðrum, láta lítið fyrir sér fara, sýna afneitun, grátur, sinnuleysi og sjálfsskaðandi hegðun (t.d. að skera í sig).

Það er auðvelt að koma auga á hið jákvæða í sjálfsbjargarleiðunum. Að ráðast á hættu eða flýja frá henni eykur upplifun okkar af öryggi og þar með vellíðan, en þetta tvennt sækir heilinn helst í. Markmið sjálfsbjargarleiðanna er þannig að auka lífslíkur okkar og ánægju. Án þeirra værum við útdauð.

Vandamálið er þannig ekki sjálfsbjargarleiðirnar sem slíkar, heldur það sem stýrir þeim – túlkun heilans á hættu/óöryggi. Kreppa einkennist af óöryggi. Óöryggi varðandi það að halda vinnu, geta greitt af lánum, haldið húsnæði, bíl, veitt börnunum það sem maður telur að þau þurfi til að geta dafnað eðlilega o.s.frv. Ef við upplifum að stjórn okkar á aðstæðum sé ekki nægjanlega mikil fer varnarkerfið í gang eftir reglunni:

Þónokkur stjórn á aðstæðum => árás; nokkur stjórn á aðstæðum => flótti; engin stjórn á aðstæðum => stirðnun.

Kjarninn í ungbarnaþunglyndi er talinn vera stirðnunarmekanisminn og kenningin um áunnið hjálparleysi sem orsök þunglyndis passar sömuleiðis vel inn í upplifun, tilfinningar og hegðun þessarar sjálfsbjargarleiðar. Hliðrun/forðun er talin kjarnahegðun í kvíðakvillum og þeir sem eiga við reiðistjórnunarvandamál að stríða sýna dæmigerðar tilfinningar og hegðun árásarmekanismans.

Þar sem heilinn er ólínulegt kerfi sem leggur ofuráherslu á að halda okkur á lífi eru allar sjálfsbjargarleiðirnar virkar á sama tíma, mismikið þó eftir því hver upplifun okkar á aðstæðum er hverju sinni. Við getum þannig skipt frá reiði til kvíða á skömmum tíma, frá vanmætti til reiði (eins og þegar maður sem horfir lamaður í hlaupið á skammbyssu (stirðnun) skyndilega grípur til árásar þegar hann sér að tilræðismaður hans lítur undan vegna hljóðs í fjarska) o.s.frv., allt eftir því hvaða sjálfsbjargarleið heilinn telur besta það og það augnablikið. Ef við upplifum of mikið óöryggi í of langan tíma eykst hins vegar hættan á því að varnarkerfið verði of mikið virkt. Þar með eykst hættan á að ein af sjálfsbjargarleiðunum verði fyrir valinu sem „leiðin“ til að takast á við aðsteðjandi vanda og þá er stutt í reiðivandann, kvíðakvillan eða þunglyndið. Það þarf ekki að koma á óvart að börn nota meira flótta og stirðnun en fullorðnir þar sem upplifun barna á stjórn á aðstæðum er almennt minni en fullorðinna.

Það er því ekkert skrítið að tíðni kvíða og þunglyndis aukist á tímum kreppu eins og lesa má um í fyrrnefndri skýrslu Hauks Sigurðssonar. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á að þunglyndi og kvíði foreldra „smitast“ yfir á börnin. Hæfni okkar til að skynja innra ástand annarra og setja okkur í spor þeirra (samkennd) minnkar og í takt við virkni varnarkerfisins. Fyrir foreldra þýðir þetta að ef foreldrar eru þunglyndir, kvíðnir eða reiðir minnkar hæfni þeirra til að mynda góð tengsl við börn sín. Þar sem góð tengsl eru fyrsta og jafnframt mikilvægasta uppspretta öryggis hjá börnum, er góð andleg líðan foreldra grundvallarforsenda þess að þeir geti veitt börnum sínum nægjanlegt öryggi. Börn eru þess utan viðkvæmari gagnvart breytingum en fullorðnir því geta þeirra og möguleikar til að hafa áhrif á aðstæður eru minni. Börn eru því að öllu jöfnu enn líklegri en fullorðnir við sambærilegar aðstæður til að verða of virku varnarkerfi að bráð með tilheyrandi vanlíðan og spennu. Heilar barna eru og enn í mótun og því meiri hætta á að mikið óöryggi og afleiðingar þess setji dýpri og meira langvarandi mark sitt á börn en fullorðna. Því er eðlilegt að sá hópur sem verst fór út úr kreppu Finna á 10. áratug síðustu aldar hafi verið börn þess tíma.

Fyrst eftir hrun bankanna virtist íslenska þjóðin vera lömuð (stirðnun) – „Þetta getur ekki verið“ (afneitun). Svo kom reiðin, mótmælin og nornaveiðarnar. Nú virðist kvíðinn vera mest ráðandi – „Hvað verður um okkur?“, „Er hægt að verja heimilin og fyrirtækin í landinu hruni?“, „Er ekki best að leita til pabba og mömmu (Evrópusambandsins)?“. Varnarkerfi Íslendinga er svo sannarlega í gangi. Eðlilega. Það er tími óvissunnar og hann getur verið hættulegur andlegu ástandi og eðlilegum þroska barna.

Fyrstu viðbrögð sem fram komu í þjóðfélaginu eftir bankahrunið mikla var að hlúa að fjölskyldunni, leita til ástvina sinna eftir stuðningi og huggun. Ósjálfrátt, sem þó ekki var ósjálfrátt því heilinn veit hvað hann þarf, gripum við til þess að leita til aðaluppsprettu öryggis okkar – hvors annars. Eins og ungabarnið sem fer út að kanna heiminn en leitar alltaf aftur til öruggu hafnarinnar til að kanna hvort enn sé ekki allt í lagi. Svo fór varnarkerfi þjóðarinnar í gang. Þarfirnar eru þó enn í grundvallaratriðum þær sömu – við þurfum öryggi, hvort annað. Einfalt svar en erfið útfærsla. Meðvitund er þó alltaf fyrsta skref breytinga í rétta átt. Meðvitundin um að öryggi verður að vera það leiðarljós sem lýsir okkur fram veginn í átt að aukinni vellíðan í nánustu framtíð. Sérstaklega fyrir börnin sem þurfa á því að halda að geta leikið sér og lært (könnunarhegðun) til að heilinn geti þroskast á sem eðlilegastan máta. Of virkt varnarkerfi hægir á og jafnvel stoppar könnunarhegðun. Að kvíði og þunglyndi komi í stað hennar þurfa íslenskt börn síst á að halda sem vegarnesti til framtíðar. Í mínum huga er því mikilvægasta spurningin um þessar mundir hvernig við tryggjum sem best öryggi íslenskra barna.

Guðbrandur Árni Ísberg

Greinar
Archive
bottom of page